Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Af hverju er sagt að menn séu tvítugir og sjötugir en síðan níræðir og tíræðir?

Guðrún Kvaran

Til að tákna hversu marga tugi eitthvað hafði að geyma voru mynduð þegar í fornu máli lýsingarorð, svokölluð tölulýsingarorð, sem enduðu á –tugur (-togr, -tugr). Voru þau notuð um aldur, hæð og dýpt og eru enn. Sagt er að maður sé tvítugur ef hann hefur lifað tvo áratugi, talað er um tvítugt dýpi, tvítugt bjarg og tvítugt kvæði (hefur tuttugu erindi). Að baki er nafnorðið tugur í merkingunni ‘tíu’. Það er samnorrænt, samgermanskt og sameiginlegt ýmsum indóevrópskum málum, samanber til dæmis decem á latínu.


Maðurinn til vinstri á myndinni gæti verið fertugur en hinn er líklega farinn að nálgast áttrætt.

Síðari liðurinn –ræður var einnig notaður til þess að mynda tölulýsingarorð sem á sama hátt og orð sem enda á –tugur segja til um aldur, hæð og dýpt. Talað er um áttræðan, níræðan og tíræðan mann ef viðkomandi er áttatíu, níutíu eða hundrað ára. Einnig er talað um áttrætt, nírætt, tírætt, tólfrætt dýpi og er þá átt við hversu margir faðmar það er. Viðliðurinn –ræður er skyldur viðliðnum -rað í hundrað. Ásgeir Blöndal Magnússon tengir viðliðinn gotnesku sögninni garaþjan ‘reikna, telja’ og kvenkynsorðinu raþjo ‘reikningur, tala’ (Íslensk orðsifjabók 1989:785). (Gotneska var austurgermanskt mál nú útdautt en nýtist afar vel til að skilja og skýra uppruna annarra germanskra mála.)

Málvenja ræður því fyrst og fremst að –tugur er notað frá 20 til 70 um aldur manna en –ræður um 80 til 100. Aftur á móti er sagt: hann er á áttugasta aldursári, hún er á nítugasta aldursári, þau eru bæði á hundraðasta aldursári. Eftir 100 er talað um hundrað og tíu, hundrað og tuttugu og svo framvegis.

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hvernig stendur á því (málfræðilega) að menn eru tvítugir, þrítugir ... sjötugir, en síðan áttræðir, níræðir og tíræðir?

Hvað tekur svo við? Hvað merkir orðhlutinn -ræður í þessu sambandi?

Mynd:

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

15.10.2008

Spyrjandi

Jón Ingi Jósafatsson
Steinunn Sigurðardóttir

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Af hverju er sagt að menn séu tvítugir og sjötugir en síðan níræðir og tíræðir?“ Vísindavefurinn, 15. október 2008. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=48720.

Guðrún Kvaran. (2008, 15. október). Af hverju er sagt að menn séu tvítugir og sjötugir en síðan níræðir og tíræðir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=48720

Guðrún Kvaran. „Af hverju er sagt að menn séu tvítugir og sjötugir en síðan níræðir og tíræðir?“ Vísindavefurinn. 15. okt. 2008. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=48720>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju er sagt að menn séu tvítugir og sjötugir en síðan níræðir og tíræðir?
Til að tákna hversu marga tugi eitthvað hafði að geyma voru mynduð þegar í fornu máli lýsingarorð, svokölluð tölulýsingarorð, sem enduðu á –tugur (-togr, -tugr). Voru þau notuð um aldur, hæð og dýpt og eru enn. Sagt er að maður sé tvítugur ef hann hefur lifað tvo áratugi, talað er um tvítugt dýpi, tvítugt bjarg og tvítugt kvæði (hefur tuttugu erindi). Að baki er nafnorðið tugur í merkingunni ‘tíu’. Það er samnorrænt, samgermanskt og sameiginlegt ýmsum indóevrópskum málum, samanber til dæmis decem á latínu.


Maðurinn til vinstri á myndinni gæti verið fertugur en hinn er líklega farinn að nálgast áttrætt.

Síðari liðurinn –ræður var einnig notaður til þess að mynda tölulýsingarorð sem á sama hátt og orð sem enda á –tugur segja til um aldur, hæð og dýpt. Talað er um áttræðan, níræðan og tíræðan mann ef viðkomandi er áttatíu, níutíu eða hundrað ára. Einnig er talað um áttrætt, nírætt, tírætt, tólfrætt dýpi og er þá átt við hversu margir faðmar það er. Viðliðurinn –ræður er skyldur viðliðnum -rað í hundrað. Ásgeir Blöndal Magnússon tengir viðliðinn gotnesku sögninni garaþjan ‘reikna, telja’ og kvenkynsorðinu raþjo ‘reikningur, tala’ (Íslensk orðsifjabók 1989:785). (Gotneska var austurgermanskt mál nú útdautt en nýtist afar vel til að skilja og skýra uppruna annarra germanskra mála.)

Málvenja ræður því fyrst og fremst að –tugur er notað frá 20 til 70 um aldur manna en –ræður um 80 til 100. Aftur á móti er sagt: hann er á áttugasta aldursári, hún er á nítugasta aldursári, þau eru bæði á hundraðasta aldursári. Eftir 100 er talað um hundrað og tíu, hundrað og tuttugu og svo framvegis.

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hvernig stendur á því (málfræðilega) að menn eru tvítugir, þrítugir ... sjötugir, en síðan áttræðir, níræðir og tíræðir?

Hvað tekur svo við? Hvað merkir orðhlutinn -ræður í þessu sambandi?

Mynd:...