Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hverjir gerðu steinstytturnar á Páskaeyju og í hvaða tilgangi?

Orri Vésteinsson

Páskaeyja eða Rapa Nui er örlítil og einangruð eyja austarlega í Kyrrahafi. Hún er nærri 2000 km austar en austustu byggðu eyjar í Tuamotu-eyjaklasanum, en 4000 km frá ströndum Suður-Ameríku. Hún er aðeins 164 ferkílómetrar – tvöfalt stærri en Þingvallavatn.

Evrópumenn komu þangað fyrst 1722 (á páskadegi, þar af nafnið) og komust fljótlega á snoðir um að á eyjunni voru hundruðir af risastórum styttum sem eiga sér enga líka í veröldinni. Þær voru þá margar fallnar, en höfðu greinilega staðið, sumar á grjóthlöðnum sökklum við strendur eyjarinnar, þær stærstu meira en 9 metra háar.



Evrópumenn á Páskaeyju í kringum 1880. Vel sést hversu stórar stytturnar eru.

Stytturnar eru allar með líku formi: stórgert, stílfært andlit með löngu nefi og miklum augabrúnum, höggin út úr einu og sama bjarginu og búkurinn sem oftast er með hendur niður með síðum en að öðru leyti minna mótaður en andlitin. Á mörgum styttunum hefur síðan verið steinhattur úr öðru bjargi. Margar styttur eru hálfkláraðar í aðalnámunni austantil á eyjunni og nokkrar hafa verið skildar eftir á víðavangi eins og fólk hafi gefist upp í miðjum klíðum á að flytja þær á réttan stað.

Páskeyingar, sem tala pólýnesískt tungumál, kunnu margt af þessum styttum að segja en minnst af því var skráð fyrr en eftir að innfluttir sjúkdómar höfðu leikið þjóðina grátt og stór hluti hennar hafði verið hnepptur í þrældóm á 19. öld. Páskeyingar sem verið höfðu á bilinu 7000-9000 talsins áður en Evrópumenn komu þangað voru aðeins 250 í byrjun 20. aldar. Það er ein af ömurlegri birtingarmyndum evrópskrar heimsvaldastefnu að á sama áratug og perúskir þrælasalar fylltu skip sína af fólki frá Páskaeyju og enskir sjóliðar voru sendir til að ná í eina af glæsilegustu styttunum til að koma henni á British Museum fannst engum koma til greina að eyjarskeggjar gætu hafa haft neitt með stytturnar að gera.

Hefur sú skoðun orðið mjög lífsseig að einhver æsilegri skýring hljóti að vera á þeim en að þær hafi verið reistar af fólkinu sem bjó á Páskaeyju. Fjölmargar tilgátur hafa verið settar fram, meðal annars að stytturnar hafi verið reistar af geimverum eða af sjóförum frá Suður Ameríku. Þó sýndi fyrsta skipulega rannsóknin sem gerð var á þeim, af Katherine Scoresby Routledge á árunum 1914-16, ljóslega fram á að Páskeyingar sjálfir höfðu gert stytturnar og að þær höfðu til skamms tíma gegnt mikilvægu hlutverki í stjórnmálum og trúarbrögðum eyjarskeggja.



Fjölmargar styttur eru enn í aðalnámunni í gígnum Rano Raraku, þar á meðal þessar tvær.

Stytturnar eru taldar hafa verið reistar á löngu tímabili, ef til vill frá þrettándu öld og fram á þá sautjándu. Á því tímabili urðu bæði breytingar á stærð og stíl styttanna og eins var mikið um að þær væru felldar eða teknar niður og aðrar reistar í staðinn. Nærri 900 styttur og styttubrot hafa verið skráð en þar af eru tæplega 400 enn í aðalnámunni eða næsta nágrenni hennar. Aðeins 134 styttur eru nú nokkurn veginn heillegar en hinar hafa brotnað, sumar meðan unnið var að gerð þeirra eða flutning en aðrar hugsanlega vísvitandi eftir að búið var að reisa þær og finnast brotin oft í sökklunum sem yngri styttur eru reistar á. Þó Páskeyjarstytturnar séu sérstakar þá hafa þær engu að síður skýr einkenni pólýnesískrar höggmyndahefðar. Það sem er aðallega sérstætt við þær er hversu stórar og margar þær eru – samtals vega þær um 8000 tonn og að þessu leyti eru þær einstök mannvirki.

Enn stóðu víða styttur á eyjunni á 18. öld en þegar komið var fram á 19. öld og fræðimenn byrjuðu að huga skipulega að þeim var búið að fella þær allar. Allmargar hafa síðan verið reistar við aftur á síðustu áratugum. Svo virðist sem stytturnar hafi ekki lengur gegnt sama hlutverki og áður þegar komið var fram á 18. öld en þá höfðu annars konar (en ekki síður sérstæðir og áhugaverðir) trúarsiðir tekið við.



Ahu Akivi eru sjö styttur á sökkli sem voru endurreistar í kringum 1960. Ólíkt öðrum styttum á Páskaeyju sem voru reistar við ströndina og sneru baki í hafið eru þessar inn til landsins og horfa í átt til sjávar.

Það eru því ekki til neinar samtímaheimildir sem lýsa því hvaða merkingu eða hlutverk stytturnar höfðu fyrir fólkið sem reisti þær. Flestir fræðimenn sem um þetta efni hafa ritað eru þó sammála um að stytturnar séu af tilteknum einstaklingum, því allar hafa þær séreinkenni þó yfirbragðið sé keimlíkt, og að það hafi verið forfeður sem teknir hafi verið í guðatölu. Stytturnar eru því eins konar verndarvættir, en fjöldi þeirra og stærð (sem óx með tímanum) er skýrð með samkeppni milli höfðingjadæma. Hver höfðingi eða valdaætt hafði sinn helgistað og kepptist við að byggja þar sem flestar og stærstar styttur, auk raunar annarra mannvirkja því sökklarnir eru ekki síður stórfenglegar byggingar og til viðbótar voru bæði hús og annars konar höggmyndir hluti af þessari mynd.

Á seinni árum hefur áhugi fræðimanna færst frá því að reyna að skýra hvaða fólk reisti stytturnar á Páskaeyju (því það er enginn sérstakur leyndardómur) til þess að reyna að skilja hvernig Páskeyingar fóru að því. Það er leitun að jafnlitlum samfélögum í veraldarsögunni sem hafa skilið jafnmikið eftir sig af byggingum. Í vaxandi mæli hafa sjónir beinst að áhrifum þessarar miklu styttugerðarsamkeppni á umhverfið, en augljóst er að mannvist hefur leikið gróður- og dýralíf Páskaeyju grátt.

Nú er talið að eyjan hafi verið numin um 1200 e.Kr. og mjög fljótlega eftir það fara eyjarskeggjar að reisa styttur í stórum stíl. Skógareyðing hófst strax og um 1650 var eyjan orðin trjálaus. Það hafa verið settar fram kenningar um að hin taumlausa pólitíska samkeppni sem birtist í styttugerðinni, og það mikla álag sem henni fylgdi á hagkerfið og þar með umhverfið, hafi valdið því að kerfið hrundi. Páskeyingar eiga þá að hafa gengið svo nærri viðkvæmu vistkerfi eyjarinnar að það hafi á endanum gefið sig og valdið gríðarlegri fólksfækkun, svo mikilli að framleiðslu á styttunum hafi verið sjálfhætt. Jared Diamond hefur meðal annars haldið þessu fram í áhrifamikilli metsölubók, Collapse: How Societies Choose to Fail or Succeed. Á móti hefur verið bent á að engar skýrar vísbendingar eru um fólksfækkun fyrr en eftir að Evrópumenn fóru að venja komur sínar til eyjarinnar en að þá hafi styttuframleiðslu verið löngu hætt, væntanlega þá af einhverjum minna, eða öðruvísi, dramatískum ástæðum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Jo Anne Van Tilburg, Easter Island. Archaeology, Ecology and Culture, London: British Museum Press 1994.
  • Patrick Vinton Kirch, On the Road of the Winds. An Archaeological History of the Pacific Islands before European Contact, Berkely: University of California Press 2000, einkum bls. 267-75.
  • Jared Diamond, Collapse: How Societies Choose to Fail or Succeed, London: Penguin 2005, bls. 79-119.
  • Terry L. Hunt & Carl L. Lipo, ‘Ecological Catastrophe, Collapse and the Myth of “Ecocide” on Rapa Nui (Easter Island).’ Questioning Collapse. Human Resilience, Ecological Vulnerability, and the Aftermath of Empire, P.A. McAnany & N. Yoffee ritstjórar, Cambridge: Cambridge University Press 2010, bls. 21-44.
  • Gömul mynd: Rano Raraku á Wikipedia. Sótt 26. 5. 2010.
  • Mynd frá Rano Raraku: Rano Raraku moai - statues - Easter Island - Rapa Nui | Flickr. Ljósmyndari: David Berkowitz. Birt undir CC BY 2.0 leyfi. Sótt 8.4.2020.
  • Mynd af Ahu Akivi Easter Island á Wikipedia. Ljósmyndari: Ian Sewell. Birt undir GNU Free Documentation og Creative Commons Attribution ShareAlike 3.0 leyfum. Sótt 26. 5. 2010.

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

28.6.2010

Spyrjandi

Auður Sellgren, Halla Hauksdóttir, Kristinn Pálsson

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Hverjir gerðu steinstytturnar á Páskaeyju og í hvaða tilgangi?“ Vísindavefurinn, 28. júní 2010. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=27641.

Orri Vésteinsson. (2010, 28. júní). Hverjir gerðu steinstytturnar á Páskaeyju og í hvaða tilgangi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=27641

Orri Vésteinsson. „Hverjir gerðu steinstytturnar á Páskaeyju og í hvaða tilgangi?“ Vísindavefurinn. 28. jún. 2010. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=27641>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjir gerðu steinstytturnar á Páskaeyju og í hvaða tilgangi?
Páskaeyja eða Rapa Nui er örlítil og einangruð eyja austarlega í Kyrrahafi. Hún er nærri 2000 km austar en austustu byggðu eyjar í Tuamotu-eyjaklasanum, en 4000 km frá ströndum Suður-Ameríku. Hún er aðeins 164 ferkílómetrar – tvöfalt stærri en Þingvallavatn.

Evrópumenn komu þangað fyrst 1722 (á páskadegi, þar af nafnið) og komust fljótlega á snoðir um að á eyjunni voru hundruðir af risastórum styttum sem eiga sér enga líka í veröldinni. Þær voru þá margar fallnar, en höfðu greinilega staðið, sumar á grjóthlöðnum sökklum við strendur eyjarinnar, þær stærstu meira en 9 metra háar.



Evrópumenn á Páskaeyju í kringum 1880. Vel sést hversu stórar stytturnar eru.

Stytturnar eru allar með líku formi: stórgert, stílfært andlit með löngu nefi og miklum augabrúnum, höggin út úr einu og sama bjarginu og búkurinn sem oftast er með hendur niður með síðum en að öðru leyti minna mótaður en andlitin. Á mörgum styttunum hefur síðan verið steinhattur úr öðru bjargi. Margar styttur eru hálfkláraðar í aðalnámunni austantil á eyjunni og nokkrar hafa verið skildar eftir á víðavangi eins og fólk hafi gefist upp í miðjum klíðum á að flytja þær á réttan stað.

Páskeyingar, sem tala pólýnesískt tungumál, kunnu margt af þessum styttum að segja en minnst af því var skráð fyrr en eftir að innfluttir sjúkdómar höfðu leikið þjóðina grátt og stór hluti hennar hafði verið hnepptur í þrældóm á 19. öld. Páskeyingar sem verið höfðu á bilinu 7000-9000 talsins áður en Evrópumenn komu þangað voru aðeins 250 í byrjun 20. aldar. Það er ein af ömurlegri birtingarmyndum evrópskrar heimsvaldastefnu að á sama áratug og perúskir þrælasalar fylltu skip sína af fólki frá Páskaeyju og enskir sjóliðar voru sendir til að ná í eina af glæsilegustu styttunum til að koma henni á British Museum fannst engum koma til greina að eyjarskeggjar gætu hafa haft neitt með stytturnar að gera.

Hefur sú skoðun orðið mjög lífsseig að einhver æsilegri skýring hljóti að vera á þeim en að þær hafi verið reistar af fólkinu sem bjó á Páskaeyju. Fjölmargar tilgátur hafa verið settar fram, meðal annars að stytturnar hafi verið reistar af geimverum eða af sjóförum frá Suður Ameríku. Þó sýndi fyrsta skipulega rannsóknin sem gerð var á þeim, af Katherine Scoresby Routledge á árunum 1914-16, ljóslega fram á að Páskeyingar sjálfir höfðu gert stytturnar og að þær höfðu til skamms tíma gegnt mikilvægu hlutverki í stjórnmálum og trúarbrögðum eyjarskeggja.



Fjölmargar styttur eru enn í aðalnámunni í gígnum Rano Raraku, þar á meðal þessar tvær.

Stytturnar eru taldar hafa verið reistar á löngu tímabili, ef til vill frá þrettándu öld og fram á þá sautjándu. Á því tímabili urðu bæði breytingar á stærð og stíl styttanna og eins var mikið um að þær væru felldar eða teknar niður og aðrar reistar í staðinn. Nærri 900 styttur og styttubrot hafa verið skráð en þar af eru tæplega 400 enn í aðalnámunni eða næsta nágrenni hennar. Aðeins 134 styttur eru nú nokkurn veginn heillegar en hinar hafa brotnað, sumar meðan unnið var að gerð þeirra eða flutning en aðrar hugsanlega vísvitandi eftir að búið var að reisa þær og finnast brotin oft í sökklunum sem yngri styttur eru reistar á. Þó Páskeyjarstytturnar séu sérstakar þá hafa þær engu að síður skýr einkenni pólýnesískrar höggmyndahefðar. Það sem er aðallega sérstætt við þær er hversu stórar og margar þær eru – samtals vega þær um 8000 tonn og að þessu leyti eru þær einstök mannvirki.

Enn stóðu víða styttur á eyjunni á 18. öld en þegar komið var fram á 19. öld og fræðimenn byrjuðu að huga skipulega að þeim var búið að fella þær allar. Allmargar hafa síðan verið reistar við aftur á síðustu áratugum. Svo virðist sem stytturnar hafi ekki lengur gegnt sama hlutverki og áður þegar komið var fram á 18. öld en þá höfðu annars konar (en ekki síður sérstæðir og áhugaverðir) trúarsiðir tekið við.



Ahu Akivi eru sjö styttur á sökkli sem voru endurreistar í kringum 1960. Ólíkt öðrum styttum á Páskaeyju sem voru reistar við ströndina og sneru baki í hafið eru þessar inn til landsins og horfa í átt til sjávar.

Það eru því ekki til neinar samtímaheimildir sem lýsa því hvaða merkingu eða hlutverk stytturnar höfðu fyrir fólkið sem reisti þær. Flestir fræðimenn sem um þetta efni hafa ritað eru þó sammála um að stytturnar séu af tilteknum einstaklingum, því allar hafa þær séreinkenni þó yfirbragðið sé keimlíkt, og að það hafi verið forfeður sem teknir hafi verið í guðatölu. Stytturnar eru því eins konar verndarvættir, en fjöldi þeirra og stærð (sem óx með tímanum) er skýrð með samkeppni milli höfðingjadæma. Hver höfðingi eða valdaætt hafði sinn helgistað og kepptist við að byggja þar sem flestar og stærstar styttur, auk raunar annarra mannvirkja því sökklarnir eru ekki síður stórfenglegar byggingar og til viðbótar voru bæði hús og annars konar höggmyndir hluti af þessari mynd.

Á seinni árum hefur áhugi fræðimanna færst frá því að reyna að skýra hvaða fólk reisti stytturnar á Páskaeyju (því það er enginn sérstakur leyndardómur) til þess að reyna að skilja hvernig Páskeyingar fóru að því. Það er leitun að jafnlitlum samfélögum í veraldarsögunni sem hafa skilið jafnmikið eftir sig af byggingum. Í vaxandi mæli hafa sjónir beinst að áhrifum þessarar miklu styttugerðarsamkeppni á umhverfið, en augljóst er að mannvist hefur leikið gróður- og dýralíf Páskaeyju grátt.

Nú er talið að eyjan hafi verið numin um 1200 e.Kr. og mjög fljótlega eftir það fara eyjarskeggjar að reisa styttur í stórum stíl. Skógareyðing hófst strax og um 1650 var eyjan orðin trjálaus. Það hafa verið settar fram kenningar um að hin taumlausa pólitíska samkeppni sem birtist í styttugerðinni, og það mikla álag sem henni fylgdi á hagkerfið og þar með umhverfið, hafi valdið því að kerfið hrundi. Páskeyingar eiga þá að hafa gengið svo nærri viðkvæmu vistkerfi eyjarinnar að það hafi á endanum gefið sig og valdið gríðarlegri fólksfækkun, svo mikilli að framleiðslu á styttunum hafi verið sjálfhætt. Jared Diamond hefur meðal annars haldið þessu fram í áhrifamikilli metsölubók, Collapse: How Societies Choose to Fail or Succeed. Á móti hefur verið bent á að engar skýrar vísbendingar eru um fólksfækkun fyrr en eftir að Evrópumenn fóru að venja komur sínar til eyjarinnar en að þá hafi styttuframleiðslu verið löngu hætt, væntanlega þá af einhverjum minna, eða öðruvísi, dramatískum ástæðum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Jo Anne Van Tilburg, Easter Island. Archaeology, Ecology and Culture, London: British Museum Press 1994.
  • Patrick Vinton Kirch, On the Road of the Winds. An Archaeological History of the Pacific Islands before European Contact, Berkely: University of California Press 2000, einkum bls. 267-75.
  • Jared Diamond, Collapse: How Societies Choose to Fail or Succeed, London: Penguin 2005, bls. 79-119.
  • Terry L. Hunt & Carl L. Lipo, ‘Ecological Catastrophe, Collapse and the Myth of “Ecocide” on Rapa Nui (Easter Island).’ Questioning Collapse. Human Resilience, Ecological Vulnerability, and the Aftermath of Empire, P.A. McAnany & N. Yoffee ritstjórar, Cambridge: Cambridge University Press 2010, bls. 21-44.
  • Gömul mynd: Rano Raraku á Wikipedia. Sótt 26. 5. 2010.
  • Mynd frá Rano Raraku: Rano Raraku moai - statues - Easter Island - Rapa Nui | Flickr. Ljósmyndari: David Berkowitz. Birt undir CC BY 2.0 leyfi. Sótt 8.4.2020.
  • Mynd af Ahu Akivi Easter Island á Wikipedia. Ljósmyndari: Ian Sewell. Birt undir GNU Free Documentation og Creative Commons Attribution ShareAlike 3.0 leyfum. Sótt 26. 5. 2010.
...