Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um Stephan G. Stephansson?

Vignir Már Lýðsson

Ljóðskáldið Stephan G. Stephansson hét upphaflega Stefán Guðmundur Guðmundsson og fæddist árið 1853 á bænum Kirkjuhóli sem er rétt hjá Víðimýri í Skagafirði. Hann bjó við mikla fátækt og fluttist eftir fermingu norður í Þingeyjasýslu þar sem hann gerðist vinnumaður. Hann breytti nafni sínu þegar hann fluttist til Bandaríkjanna svo þarlendir ættu hægara með að bera nafnið hans fram. Stephan G. ætlaði að fara í skóla en sökum fátæktar varð sá draumur að engu. Fræg er sagan af því þegar hann horfði á eftir skólapiltum ríðandi suður til Reykjavíkur. Hann kvaðst ekki hafa verið gripinn öfund heldur fleygði sér niður í laut og kjökraði. Móðir hans gekk fram á hann með tárvot augun og sagði Stephan G. síðar að hún hafi sagt sér að á þeirri stundu hafi henni "fallið þyngst fátæktin".

Stephan G. Stephansson (1853-1927).

Tæplega tvítugur fluttist Stephan G. ásamt foreldrum sínum vestur um haf til Wisconsinfylkis í Bandaríkjunum. Þar vann hann meðal annars við járnbrautalagningu og skógarhögg við bág kjör en 16 árum síðar eða árið 1889 flutti hann til Albertafylkis í Kanada við rætur Klettafjalla. Stephan G., sem oft er nefndur Klettafjallaskáldið, stundaði þar búskap við erfiðar aðstæður og var lítill tími til annars en vinnu og strits. Hann hafði engan tíma á daginn til þess að sinna skáldskap og þess vegna orti hann á nóttunni. Ljóðasafn hans nefnist Andvökur.

Stephan G. gekk aldrei í skóla sökum fátæktar en hann nam margt upp á eigin spýtur. Fræg er vísan "Baslhagmennið" sem lýsir nokkurn veginn lífsbaráttu hans og þeim erfiðleikum sem hann gekk í gegnum:
Löngum var ég læknir minn,

lögfræðingur, prestur,

smiður, kóngur kennarinn,

kerra, plógur, hestur.

Erfitt var að fá íslenskar bækur í Vesturheimi en Stephan G. bjó að þeim Íslendingasögum sem hann las í æsku alla ævi. Mál hans var fjölskrúðugt og sótti hann margt yrkisefnið til Íslendingasagnanna. Meðal kvæða í þeim anda er ljóðið "Ástríður Ólafsdóttir Svíakonungs." Hann samdi einnig ádeilukvæði en þau beindust fyrst og fremst að styrjöldum, kirkjunni og auðvaldi enda var Stephan sósíalisti. Meðal kvæða sem fjölluðu um stríð var kvæðið "Transvaal" sem hann orti um stríð sem Bretar háðu gegn Búum eftir gullfund í landi þeirra.

Ljóð Stephans G. eru í anda raunsæisstefnunnar sem ruddi sér til rúms undir lok 19. aldar. Hann orti einnig rómantísk ættjarðarljóð og eitt það kunnasta er kvæðið "Úr Íslendingadagsræðu" en fyrsta erindið hljóðar svo:
Þótt þú langförull legðir,

sérhvert land undir fót,

bera hugur og hjarta

samt þíns heimalands mót,

frænka eldfjalls og íshafs!

sifji árfoss og hvers!

dóttir langholts og lyngmós!

sonur landhvers og skers!

Viðar Hreinsson hefur skrifað ævisögu Stephans G. Stephanssonar í tveimur bindum. Fyrra bindið kom út árið 2002 og nefnist Landneminn mikli og er þar vísað til búferlaflutninga hans í Vesturheimi. Seinna bindið kom út árið 2003 og nefnist Andvökuskáld.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Skólaljóð, Ríkisútgáfa námsbóka, Reykjavík, án ártals.
  • Erlendur Jónsson, Íslenzk bókmenntasaga 1750-1950, Ríkisútgáfa námsbóka, Reykjavík, 1962.
  • Skólavefurinn.is

Mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

30.10.2008

Spyrjandi

Sesselía Úlfarsdóttir

Tilvísun

Vignir Már Lýðsson. „Hvað getið þið sagt mér um Stephan G. Stephansson?“ Vísindavefurinn, 30. október 2008. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=22439.

Vignir Már Lýðsson. (2008, 30. október). Hvað getið þið sagt mér um Stephan G. Stephansson? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=22439

Vignir Már Lýðsson. „Hvað getið þið sagt mér um Stephan G. Stephansson?“ Vísindavefurinn. 30. okt. 2008. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=22439>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Stephan G. Stephansson?
Ljóðskáldið Stephan G. Stephansson hét upphaflega Stefán Guðmundur Guðmundsson og fæddist árið 1853 á bænum Kirkjuhóli sem er rétt hjá Víðimýri í Skagafirði. Hann bjó við mikla fátækt og fluttist eftir fermingu norður í Þingeyjasýslu þar sem hann gerðist vinnumaður. Hann breytti nafni sínu þegar hann fluttist til Bandaríkjanna svo þarlendir ættu hægara með að bera nafnið hans fram. Stephan G. ætlaði að fara í skóla en sökum fátæktar varð sá draumur að engu. Fræg er sagan af því þegar hann horfði á eftir skólapiltum ríðandi suður til Reykjavíkur. Hann kvaðst ekki hafa verið gripinn öfund heldur fleygði sér niður í laut og kjökraði. Móðir hans gekk fram á hann með tárvot augun og sagði Stephan G. síðar að hún hafi sagt sér að á þeirri stundu hafi henni "fallið þyngst fátæktin".

Stephan G. Stephansson (1853-1927).

Tæplega tvítugur fluttist Stephan G. ásamt foreldrum sínum vestur um haf til Wisconsinfylkis í Bandaríkjunum. Þar vann hann meðal annars við járnbrautalagningu og skógarhögg við bág kjör en 16 árum síðar eða árið 1889 flutti hann til Albertafylkis í Kanada við rætur Klettafjalla. Stephan G., sem oft er nefndur Klettafjallaskáldið, stundaði þar búskap við erfiðar aðstæður og var lítill tími til annars en vinnu og strits. Hann hafði engan tíma á daginn til þess að sinna skáldskap og þess vegna orti hann á nóttunni. Ljóðasafn hans nefnist Andvökur.

Stephan G. gekk aldrei í skóla sökum fátæktar en hann nam margt upp á eigin spýtur. Fræg er vísan "Baslhagmennið" sem lýsir nokkurn veginn lífsbaráttu hans og þeim erfiðleikum sem hann gekk í gegnum:
Löngum var ég læknir minn,

lögfræðingur, prestur,

smiður, kóngur kennarinn,

kerra, plógur, hestur.

Erfitt var að fá íslenskar bækur í Vesturheimi en Stephan G. bjó að þeim Íslendingasögum sem hann las í æsku alla ævi. Mál hans var fjölskrúðugt og sótti hann margt yrkisefnið til Íslendingasagnanna. Meðal kvæða í þeim anda er ljóðið "Ástríður Ólafsdóttir Svíakonungs." Hann samdi einnig ádeilukvæði en þau beindust fyrst og fremst að styrjöldum, kirkjunni og auðvaldi enda var Stephan sósíalisti. Meðal kvæða sem fjölluðu um stríð var kvæðið "Transvaal" sem hann orti um stríð sem Bretar háðu gegn Búum eftir gullfund í landi þeirra.

Ljóð Stephans G. eru í anda raunsæisstefnunnar sem ruddi sér til rúms undir lok 19. aldar. Hann orti einnig rómantísk ættjarðarljóð og eitt það kunnasta er kvæðið "Úr Íslendingadagsræðu" en fyrsta erindið hljóðar svo:
Þótt þú langförull legðir,

sérhvert land undir fót,

bera hugur og hjarta

samt þíns heimalands mót,

frænka eldfjalls og íshafs!

sifji árfoss og hvers!

dóttir langholts og lyngmós!

sonur landhvers og skers!

Viðar Hreinsson hefur skrifað ævisögu Stephans G. Stephanssonar í tveimur bindum. Fyrra bindið kom út árið 2002 og nefnist Landneminn mikli og er þar vísað til búferlaflutninga hans í Vesturheimi. Seinna bindið kom út árið 2003 og nefnist Andvökuskáld.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Skólaljóð, Ríkisútgáfa námsbóka, Reykjavík, án ártals.
  • Erlendur Jónsson, Íslenzk bókmenntasaga 1750-1950, Ríkisútgáfa námsbóka, Reykjavík, 1962.
  • Skólavefurinn.is

Mynd:...