Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Er loftslag á jörðinni að breytast og af hverju?

Halldór Björnsson

Á 19. öld varð mönnum ljóst að lofthjúpurinn hækkar meðalhita jarðarinnar. Vissar lofttegundir í lofthjúpnum breyta varmageislun frá jörðinni þannig að neðri hluti lofthjúpsins og yfirborð jarðar hlýna. Þessi áhrif eru nefnd gróðurhúsaáhrif, og án þeirra væri meðalhiti jarðar undir frostmarki. Vitað var að CO2 er mikilvirk gróðurhúsalofttegund og því þótti ástæða til að fylgjast með styrk þess í lofthjúpnum.

Samfelldar mælingar á styrk CO2 í lofthjúpnum hófust árið 1958 á Mauna Loa í Kyrrahafinu. Strax á fyrstu árum mælinganna kom í ljós að styrkur CO2 í lofthjúpnum jókst ár frá ári. Við upphaf mælinganna var styrkur CO2 um 315 ppm (skammstöfun fyrir part per million, það er milljónustu hlutar) en árið 2008 hafði styrkurinn vaxið í rúmlega 380 ppm.

Ef magn CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda eykst má búast við auknum gróðurhúsaáhrifum og hnattrænni hlýnun.

Afar ólíklegt er að hlýnun síðustu 50 ára megi útskýra án breytinga í ytri aðstæðum.

Samantekt á nýlegum rannsóknum á loftslagsbreytingum er lýst í ástandsskýrslu Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (e. The Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) sem gefin var út árið 2007. Þar kemur meðal annars fram að:
  • Frá upphafi iðnbyltingar (um 1750) hefur hlýnað á jörðinni. Á síðustu 100 árum er hlýnun við yfirborð rúmlega 0,7°C. Ýmsar breytingar tengdar hlýnun eru merkjanlegar. Frostdögum hefur fækkað, jafnframt því sem óvenju köldum dögum fækkar, en heitum dögum fjölgar. Hitabylgjur eru tíðari.
  • Úrkomubreytingar eru ekki jafn eindregnar og hitabreytingar. Víða má merkja verulegar langtíma breytingar á magni úrkomu, en á öðrum svæðum hefur dregið úr henni. Á norðlægum svæðum fellur meiri úrkoma en fyrr sem rigning, en minni sem snjór. Mjög víða hefur helliregn aukist, jafnvel á svæðum þar sem dregið hefur úr heildarúrkomu. Tíðni flóða og þurrka hefur sumstaðar aukist.
  • Snjóhula hefur minnkað víðast hvar, sérstaklega að vorlagi. Á norðurhveli færðist vorbráðnun fram um nærri tvær vikur á tímabilinu 1972 til 2000. Snjór nær nú mestri útbreiðslu í janúar í stað febrúar áður. Í fjalllendi minnkar snjóhulan meira neðarlega í hlíðum þar sem áhrifa hlýnunar gætir frekar. Á suðurhveli jarðar er minna um snjóhulugögn en þau sýna ýmist minnkun eða engar breytingar á næstliðnum fjórum áratugum.
  • Hörfun jökla frá 19. öld er víðtæk og nær jafnt til fjalljökla á norður- og suðurhveli sem og í hitabeltinu. Líklegt er að ísmassi beggja stóru jökulhvelanna (á Grænlandi og á Suðurskautslandinu) hafi minnkað á tímabilinu 1993-2003.
  • Hafís á norðurhveli hefur minnkað, sérstaklega sumarísinn í N-Íshafi sem hefur minnkað um 7,4% á áratug.
  • Mælingar sýna merkjanlega hlýnun sjávar á tímabilinu 1961 til 2003 og að varmainnihald efstu 700 m heimshafanna hefur aukist frá miðjum 6. áratugnum. Eðlismassabreytingar vegna hlýnunar heimshafanna haldast í hendur við hækkandi sjávaryfirborð.
  • Frá 1961 til 2003 hækkaði yfirborð sjávar að meðaltali um 1,8 mm á ári og frá 1993 um 3,1 mm á ári. Þáttur varmaþenslu í hækkun sjávarborðs vegna hlýnunar sjávar er verulegur. Þótt gögn um sjávarstöðu fyrr á tíð séu brotakennd þá er mikil vissa fyrir því að hraði sjávarborðshækkunar jókst á tímabilinu frá 1871 til 2000.
  • Aukning á styrk CO2 í lofthjúpnum leiðir til aukinnar upptöku hafsins. Þetta sýrir hafið og hefur það súrnað um 0,1 pH stig að meðaltali frá upphafi iðnbyltingar. Takmarkaður vísindalegur skilningur er á áhrifum súrnunnar á vistkerfi hafsins.

Það er því nokkuð ljóst að veðurfar er að breytast, enda er niðurstaða milliríkjanefndarinnar að það sé mjög líklegt að meðalhiti jarðar hafi á síðari hluta 20. aldar verið hærri en á nokkru en á nokkru öðru 50-ára tímabili síðustu 500 árin, og líklega sá hæsti í að minnsta kosti 1300 ár. Breytingar í ýmsum náttúruþáttum í lofthjúpnum, hafinu, í jöklum og ís bera óumdeilanleg merki þessarar hlýnunar.

Líklegast er að þessa hlýnun megi rekja til losunar gróðurhúsalofttegunda.

Milliríkjanefndin lagði mat á hvort þessa hlýnun mætti rekja til innri orsaka, svo sem tilviljanakennds náttúrulegs breytileika. Niðurstaðan er sú að það er afar ólíklegt að hlýnun síðustu 50 ára megi útskýra án breytinga í ytri aðstæðum. Samanlögð áhrif náttúrulegra þátta, það er eldgosaösku og breytinga á styrk sólar, hefðu líklega valdið kólnun á tímabilinu.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd:


Þetta svar birtist áður á vef Veðurstofu Íslands og er birt hér með góðufúslegu leyfi.

Höfundur

Halldór Björnsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

5.2.2010

Spyrjandi

Clara Gunnarsdóttir, Kolbrún Rósa

Tilvísun

Halldór Björnsson. „Er loftslag á jörðinni að breytast og af hverju?“ Vísindavefurinn, 5. febrúar 2010. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=13219.

Halldór Björnsson. (2010, 5. febrúar). Er loftslag á jörðinni að breytast og af hverju? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=13219

Halldór Björnsson. „Er loftslag á jörðinni að breytast og af hverju?“ Vísindavefurinn. 5. feb. 2010. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=13219>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er loftslag á jörðinni að breytast og af hverju?
Á 19. öld varð mönnum ljóst að lofthjúpurinn hækkar meðalhita jarðarinnar. Vissar lofttegundir í lofthjúpnum breyta varmageislun frá jörðinni þannig að neðri hluti lofthjúpsins og yfirborð jarðar hlýna. Þessi áhrif eru nefnd gróðurhúsaáhrif, og án þeirra væri meðalhiti jarðar undir frostmarki. Vitað var að CO2 er mikilvirk gróðurhúsalofttegund og því þótti ástæða til að fylgjast með styrk þess í lofthjúpnum.

Samfelldar mælingar á styrk CO2 í lofthjúpnum hófust árið 1958 á Mauna Loa í Kyrrahafinu. Strax á fyrstu árum mælinganna kom í ljós að styrkur CO2 í lofthjúpnum jókst ár frá ári. Við upphaf mælinganna var styrkur CO2 um 315 ppm (skammstöfun fyrir part per million, það er milljónustu hlutar) en árið 2008 hafði styrkurinn vaxið í rúmlega 380 ppm.

Ef magn CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda eykst má búast við auknum gróðurhúsaáhrifum og hnattrænni hlýnun.

Afar ólíklegt er að hlýnun síðustu 50 ára megi útskýra án breytinga í ytri aðstæðum.

Samantekt á nýlegum rannsóknum á loftslagsbreytingum er lýst í ástandsskýrslu Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (e. The Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) sem gefin var út árið 2007. Þar kemur meðal annars fram að:
  • Frá upphafi iðnbyltingar (um 1750) hefur hlýnað á jörðinni. Á síðustu 100 árum er hlýnun við yfirborð rúmlega 0,7°C. Ýmsar breytingar tengdar hlýnun eru merkjanlegar. Frostdögum hefur fækkað, jafnframt því sem óvenju köldum dögum fækkar, en heitum dögum fjölgar. Hitabylgjur eru tíðari.
  • Úrkomubreytingar eru ekki jafn eindregnar og hitabreytingar. Víða má merkja verulegar langtíma breytingar á magni úrkomu, en á öðrum svæðum hefur dregið úr henni. Á norðlægum svæðum fellur meiri úrkoma en fyrr sem rigning, en minni sem snjór. Mjög víða hefur helliregn aukist, jafnvel á svæðum þar sem dregið hefur úr heildarúrkomu. Tíðni flóða og þurrka hefur sumstaðar aukist.
  • Snjóhula hefur minnkað víðast hvar, sérstaklega að vorlagi. Á norðurhveli færðist vorbráðnun fram um nærri tvær vikur á tímabilinu 1972 til 2000. Snjór nær nú mestri útbreiðslu í janúar í stað febrúar áður. Í fjalllendi minnkar snjóhulan meira neðarlega í hlíðum þar sem áhrifa hlýnunar gætir frekar. Á suðurhveli jarðar er minna um snjóhulugögn en þau sýna ýmist minnkun eða engar breytingar á næstliðnum fjórum áratugum.
  • Hörfun jökla frá 19. öld er víðtæk og nær jafnt til fjalljökla á norður- og suðurhveli sem og í hitabeltinu. Líklegt er að ísmassi beggja stóru jökulhvelanna (á Grænlandi og á Suðurskautslandinu) hafi minnkað á tímabilinu 1993-2003.
  • Hafís á norðurhveli hefur minnkað, sérstaklega sumarísinn í N-Íshafi sem hefur minnkað um 7,4% á áratug.
  • Mælingar sýna merkjanlega hlýnun sjávar á tímabilinu 1961 til 2003 og að varmainnihald efstu 700 m heimshafanna hefur aukist frá miðjum 6. áratugnum. Eðlismassabreytingar vegna hlýnunar heimshafanna haldast í hendur við hækkandi sjávaryfirborð.
  • Frá 1961 til 2003 hækkaði yfirborð sjávar að meðaltali um 1,8 mm á ári og frá 1993 um 3,1 mm á ári. Þáttur varmaþenslu í hækkun sjávarborðs vegna hlýnunar sjávar er verulegur. Þótt gögn um sjávarstöðu fyrr á tíð séu brotakennd þá er mikil vissa fyrir því að hraði sjávarborðshækkunar jókst á tímabilinu frá 1871 til 2000.
  • Aukning á styrk CO2 í lofthjúpnum leiðir til aukinnar upptöku hafsins. Þetta sýrir hafið og hefur það súrnað um 0,1 pH stig að meðaltali frá upphafi iðnbyltingar. Takmarkaður vísindalegur skilningur er á áhrifum súrnunnar á vistkerfi hafsins.

Það er því nokkuð ljóst að veðurfar er að breytast, enda er niðurstaða milliríkjanefndarinnar að það sé mjög líklegt að meðalhiti jarðar hafi á síðari hluta 20. aldar verið hærri en á nokkru en á nokkru öðru 50-ára tímabili síðustu 500 árin, og líklega sá hæsti í að minnsta kosti 1300 ár. Breytingar í ýmsum náttúruþáttum í lofthjúpnum, hafinu, í jöklum og ís bera óumdeilanleg merki þessarar hlýnunar.

Líklegast er að þessa hlýnun megi rekja til losunar gróðurhúsalofttegunda.

Milliríkjanefndin lagði mat á hvort þessa hlýnun mætti rekja til innri orsaka, svo sem tilviljanakennds náttúrulegs breytileika. Niðurstaðan er sú að það er afar ólíklegt að hlýnun síðustu 50 ára megi útskýra án breytinga í ytri aðstæðum. Samanlögð áhrif náttúrulegra þátta, það er eldgosaösku og breytinga á styrk sólar, hefðu líklega valdið kólnun á tímabilinu.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd:


Þetta svar birtist áður á vef Veðurstofu Íslands og er birt hér með góðufúslegu leyfi.

...